Heimili og skóli síðan

 Foreldrar eiga það sameiginlegt að vilja að börnum þeirra líði vel. Mikilvægt er fyrir okkur öll að staldra við og huga að því sem eykur vellíðan barna.

 Menntamálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir samráði allra aðila sem vinna að velferð barna og unglinga með það að markmiði að veita þeim viðeigandi stuðning.

 Verum óhrædd við að leita ráða í þeim erfiðleikum sem við okkur blasa. Leitum til okkar nánustu og kynnum okkur þær leiðir aðrar sem samfélagið býður upp á til stuðnings við fjölskyldur.

 Munum að barnið er bróðurpart dagsins í skólanum. Það getur oft hjálpað að tala í trúnaði við ákveðna starfsmenn skólans. Menntamálaráðherra hefur hvatt skólastjórnendur til að skoða hvaða úrræði eru fyrir hendi innan skólanna til að takast á við núverandi aðstæður á sem uppbyggilegastan hátt. Hikum ekki við að afla okkur upplýsinga um úrræðin sem skólinn hefur yfir að ráða. Skólinn hefur í flestum tilvikum yfir að ráða sérfræðingum sem búa yfir bjargráðum eða geta vísað okkur áfram á þá sérfræðiþjónustu sem stendur til boða í okkar sveitarfélagi og/eða í nærsamfélaginu.

 Gleymum ekki að einn erfiðasti þátturinn í samskiptum við barnið er að skilja tilfinningar þess en það er líka einn mikilvægasti þátturinn. Það er ekkert að því að spyrjast fyrir um hvernig best er að útskýra fyrir börnunum ef við erum óörugg.

 Börnin þurfa oft og vilja tala við foreldra sína og kennara, einkum um viðkvæm mál og hluti sem valda þeim áhyggjum. Það skiptir miklu máli að hlusta og reyna að skilja. Við þurfum ekki alltaf að eiga svör við vangaveltunum en við getum hugreyst, sýnt skilning og væntumþykju.

 Við leggjum áherslu á að jákvæð samvera með fjölskyldunni skapar öryggi og börnin þurfa að finna að á þau er hlustað og spurningum þeirra svarað. Mjög mikilvægt er að hefðbundnum fjölskylduvenjum sé haldið við og matartími fjölskyldunnar er góð tímasetning til að ræða við börnin á jákvæðum nótum.

 Skólinn er vinnustaður barnanna og heimilið griðastaðurinn. Tökum saman höndum um að búa börnunum öruggt og kærleiksríkt skjól á báðum stöðum. Veitum hverju barni og hvort öðru eftirtekt, skilning og stuðning á þessum erfiðu tímum.