Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita öllum börnum hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Leggja skal áherslu á styrkleika barna og hæfni og þörf þeirra fyrir vernd og leiðsögn fullorðinna. Leikskólum ber að sinna forvarnarstarfi með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra. Starfsfólk leikskóla skal grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Í leikskólastarfi mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild. Börnum er sýnd virðing og umhyggja og þau fá hvatningu og viðfangsefni við hæfi. Litið er á þau sem fullgilda þátttakendur í samfélagi leikskólans. Eftirfarandi leiðarljós eiga að vísa leikskólum veginn í mótun leikskólastarfs. Starfsfólk leikskóla, í samráði við foreldra og börn, þarf að koma sér saman um hvernig starf leikskólans tekur mið af leiðarljósunum og skrá aðferðir og leiðir í skólanámskrá leikskólans(Aðaln.leiksk.2011,bls. 32).