Leikskólinn Furugrund starfar eftir formerkjum uppeldisstefnunnar Jákvæðs aga.

Jákvæður agi (efni tekið af vef Jákvæðs aga https://jakvaeduragi.is/)

 

Uppeldisstefnan Jákvæður agi byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela í sér að horft er á orsakir hegðunar fremur en t.d. að reyna að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast.
Jákvæður agi  gengur út á að móta umhverfi í skólum, heimilum og vinnustöðum sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu. 

Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni 

 • Meginreglur Jákvæðs aga hjálpa til við að byggja samband væntumþykju og virðingar og þær auðvelda að finna lausnir til frambúðar.  
 • Jákvæður agi byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum.  

Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu. Jákvæður agi byggir á því að börn þroski og efli með sér færni í að finna lausnir og setja sér mörk í samvinnu við fullorðna

Sjálfsstjórnarkenningar 

Jákvæður agi er uppeldisstefna byggð á sjálfsstjórnarkenningum 

Höfundar: 

 • Alfred Adler, Rudolf Dreikurs, William Glasser, Jane Nelsen o.fl. 

Það sem stýrir hegðun:  

 • Fólk er knúið áfram af innri þörfum – að tilheyra.  

Við höfum mest áhrif: 

 • þegar við höfum samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu. 

Áhrifamestu verkfærin eru: 

 • samhygð, skilningur, þrautalausnir, góðvild og festa. 

Virðing er: 

 • gagnkvæm, í samskiptum eiga allir aðilar skilið virðingu. 

Viðbrögð við óæskilegri hegðun: 

 • Að leita orsaka, finna lausnir og fylgja ákvörðunum eftir.  

Viðbrögð við hættulegri hegðun: 

 • Skýr eftirfylgd og rökréttar afleiðingar. 

Nám fer fram þegar: 

 • barn upplifir tilgang, sjálfsstjórn, þátttöku. 

 

Markmið í uppeldi 

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvaða áhrif uppeldisaðferðir hafa. Þær aðferðir sem notaðar eru ættu að hafa jákvæð og uppbyggjandi langtímamarkmið. Refsing getur til að mynda stöðvað ákveðna hegðun um stund en aftur á móti getur hún leitt til lítils sjálfsálit, skorts á hugrekki og sjálfsöryggi, uppreisnar, hefndar og ótta við að mistakast. Í kjölfarið gætu samskipti einkennst af valdabaráttu eða hefnd.  

Börn þróa ekki með sér ábyrgðarkennd ef fullorðnir eru of stýrandi og stífir. Ekki heldur ef þeir eru of eftirgefanlegir. Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu. 

Verkfærin 

Góðvild og festa  – Við viljum börnum okkar það besta  

Verkfæri sem hjálpa okkur að forðast stjórnun, refsingar, ofverndun, valdabaráttu, ósjálfstæði og hefndarhug. 

 • Notaðu spurningar sem byrja á hvað og hvernig í stað þess að segja börnunum hvað, hvernig og hvers vegna. Hlustaðu fyrst, spurðu svo. 
 • Bjóddu afmarkaða valkosti. 
 • Vertu góð fyrirmynd. 
 • Notaðu eins fá orð og mögulegt er (10 orða hámark), fyrirlestrar skila engu. 
 • Hlustaðu af athygli á barnið þitt, láttu það finna að þú virðir sjónarmið þess. Börn og unglingar hlusta best eftir að það hefur verið hlustað á þau. 
 • Notaðu húmor, ekki gleyma að hlæja, fíflast svolítið og hafa gaman. 
 • Speglun – hafðu í huga að börn eru fljót að spegla hegðun okkar, viðhorf og raddblæ.  
 • Veittu aðhald, festu og eftirfylgni með góðvild og ákveðni. 
 • Gefðu börnunum ákveðið hlutverk á heimilinu; þau finna að þau eru mikilvægur hluti af fjölskyldunni og þau skipta máli. Þetta kennir ábyrgð og eflir samkennd. 
 • Líttu á mistök sem frábært tækifæri til að læra af, bæði hvað varðar hegðun og nám. 
 • Lýstu líðan þinni heiðarlega, kenndu barninu að ræða tilfinningar sínar með því að ræða opinskátt við það.  
 • Þegar þú segir eitthvað skaltu standa við það, meina það og fylgja því eftir, ekki hóta einhverju sem þú getur ekki, eða ætlar ekki að standa við. 
 • Hvettu börnin til að koma með lausnir sjálf. 
 • Hrósaðu fyrir afmörkuð verk, hegðun eða eiginleika. Notaðu hvatningu í stað refsinga og verðlauna. 
 • Varastu að bjarga og redda málunum fyrir barnið – stundum er lærdómsríkast að takast á við eðlilegar afleiðingar. 
 • Haldið fjölskyldufundi helst vikulega, það eflir fjölskylduna og er frábær leið til að þjálfa góð samskipti, efla sjálfstæði og lífsleikni almennt. 
 • Bútið ný og/eða erfið verkefni niður fyrir barnið. 
 • Takið frá sérstakan tíma bara fyrir þig og barnið þitt og gerið e-ð saman.  
 • Hvetjið börnin til að tala við ykkur með því að venja ykkur á að verja tíma með þeim án þess að þvinga þau til samræðna.   
 • Hjálpaðu barninu að búa til venjur sem hvetja þau til sjálfstæðis og ábyrgðar. Búðu til spjald MEÐ barninu, skráið niður verkefni sem þarf að gera (svefntími, morgunverk, heimavinnan o.fl.). 
 • Komdu því til skila með viðmóti, framkomu og orðum að þú elskar barnið þitt, það á alltaf að skína í gegn, sama hvað á gengur. 
 • Notaðu griðastað og leggðu áherslu á að kenna barninu að nota hann þegar það er í ójafnvægi. 
 • Segðu NEI í hófi. 
 • Mundu eftir mismunandi ástæðum hegðunar. Notaðu töfluna og æfðu þig í finna ólíkar lausnir. 
 • ,,Ég er viss um að þú/þið getur fundið út úr þessu. Láttu mig vita þegar þú hefur fundið lausn.“ 
 • Varastu að bjarga málum. Ef barnið gleymir bókinni sinni í skólanum, spurðu það hvernig það ætli að leysa málið. 
 • Vertu hreinskilinn. Notaðu Ég skilaboð.  
 • Taktu lítil skref í einu. 
 • V – A – L  – Viðurkenna – Afsaka – Leysa vanda 
 • Náðu tengingu við barnið áður en þú leiðréttir hegðun þess. 
 • Notaðu vingjarnlegt augnsamband/bros og ábendingar án orða. 
 • Skrifaðu skilaboð á Post It miða.