Leikskólinn Furugrund er YAP leikskóli sem þýðir að við höfum tekið upp nýtt kerfi varðandi skipulagða leikfimi með öllum börnum leikskólans.
Andrea Björt Ólafsdóttir iðjuþjálfi leikskólans mun frá og með haustinu 2024 halda utan um hreyfistundir/leikfimi í leikskólanum.
Hvað er YAP?
YAP eða Young Athletes Program er alþjóðaverkefni sem unnið er af Special Olympics í samstarfi við háskólann í Boston. Þetta verkefni leggur aðaláherslu á börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Ísland hóf innleiðingu YAP árið 2015 og er áhersla lögð á samstarf við leikskóla. YAP snýr að allri færni sem tengist hreyfiþroska, eins og t.d. að kasta, hlaupa og sparka.
Markmiðið með þessu verkefni er að auka hreyfifærni allra barna með áherslu á persónulega nálgun, sérstök áhersla er lögð á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Ef leikskólar leggja markvissa áherslu á hreyfingu, eins og YAP býður upp á, getur það meðal annars stuðlað að því að börn með einhvers konar þroskafrávik verði virkari í íþróttastarfi í framtíðinni.
Hér er hægt að lesa sér meira til um YAP: Young Athletes (specialolympics.org)
Unnið er eftir fyrirfram ákveðnum markmiðum og áhersluatriðum fjórar vikur í senn. Í tímunum verða börnin berfætt og því gott að vera ekki í sokkabuxum þá daga sem þau eru í leikfimi. Öll börnin fá leikfimistíma 2x í viku og hver tími er frá 20-45 mínútur. Leikfimitímarnir verða áfram í íþróttasal í Snælandsskóla en fram til áramóta munu börnin á Álfa- og Dvergasteini þó fara í sína tíma innanhúss í Furugrund 1. Einnig verður boðið upp á einstaklings/paratíma fyrir þau börn sem við teljum þurfa á því að halda. Foreldrar verða látnir vita ef svo er. Nánari upplýsingar um tímasetningar er að fá hjá deildarstjórum.
Áður en leikfimin hefst þá fer fram mat þar sem staða hvers og eins barns er metin. Framfarir verða síðan metnar reglulega eða um það bil einu sinni á önn.