Óvenjulegt bíó
Elstu börnin á Töfrasteini fengu óvenjulegt verkefni: að horfa á leikritið Ávaxtakörfuna með augum Lausnahetjunnar. Þau þurftu ekki að horfa nema 30 mínútur til að átta sig á því að samskiptin í verkinu voru ekki til fyrirmyndar.
Við hvert atvik var sýningin stoppuð og börnin ræddu hvað hefði mátt fara betur. Þau töldu tíðni, á því þegar farið var yfir mörk einhvers eins og rifrildi, stríðni og útilokun og sögðu:
„Ávaxtakarfan þarf að breytast og nota Lausnahringinn eins og við.“
Í umræðunum ímynduðu þau sér hvernig Lausnahetjan gæti stigið inn í söguna, hjálpað þeim sem voru útundan og minnt persónurnar á að stoppa, stjórna sér, skiptast á, hjálpa, knúsa, fyrirgefa og leyfa öllum að vera með.
Hvað lærðu börnin?
- Greining og samkennd: Þau sáu hvernig orð og gjörðir hafa áhrif á tilfinningar annarra og æfðu að setja sig í spor persónanna.
- Barnasáttmáli SÞ: Þau ræddu um réttindi barna til að fá að vera með, sýna virðingu og leysa ágreining án ofbeldis.
- Blær: Þau tengdu verkið við Blæ bangsa og æfðu sig í hugrekki, vináttu.
- Jákvæður agi: Þau þjálfuðu sig að sýna sjálfstjórn, heyra álit annarra og skiptast á skoðun, virða það sem aðrir segja án þess að breyta sinni skoðun.
- Sköpun og hugrekki: Þau veltu fyrir sér hvort þau gætu endurskrifað leikritið þannig að lausnirnar fái meira pláss.
Niðurstaðan
Þannig lærðu börnin að samskipti skipta öllu máli, hvort sem það er í leikriti, í leikskólanum og í lífinu almennt. Þau upplifðu að þau sjálf geti orðið Lausnahetjur í lífinu, sem bæði greina vandamál og skapa nýjar leiðir til að leysa þau.