Viðurkenning sem réttindaskóli UNICEF

Fimm leikskólar í Kópavogi, Furugrund, Arnarsmári, Álfaheiði, Kópahvoll og Sólhvörf fengu í dag viðurkenningu fyrir að vera réttindaskólar UNICEF. Leikskólarnir eru þeir fyrstu í heiminum til að hljóta þessa viðurkenningu.
Elstu börnin okkar tóku við viðurkenningunni sem réttindaskóli UNICEF við hátíðlega athöfn í Salnum í morgun. Við erum ákaflega stolt af þeim og stóðu þau sig með stakri prýði en líf og fjör var við athöfnina líkt og segir í texta í frétt frá Kópavogsbæ;

"Börnin úr leikskólunum sungu tvö lög, réttindaleikskólaverkefnið var kynnt og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs ávarpaði gesti. Þá afhentu Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF og Sigyn Blöndal skólastjóri Réttindaskólans viðurkenninguna og tóku börn úr efstu deildum leikskólanna við henni.
Réttindaskólar UNICEF leggja áherslu á að byggja upp upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Verkefnið byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er alþjóðlegt verkefni sem snýst um að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda.
Við í Kópavogi erum ótrúlega stolt af því fyrstu leikskólar sem verða réttindaskólar UNICEF eru í bænum okkar. Það er mikilvægt að hlusta á raddir barna og virkja þau til þátttöku eins og við erum að gera hér í Kópavogi. Þannig búum við til enn betra samfélag,¿ sagði Ásdís við tækifærið.
Samstarf leikskólanna sem fengu viðurkenninguna og UNICEF hófst í ársbyrjun 2020 og hófst þá þróunarvinna til að aðlaga verkefni réttindaskóla að starfi leikskóla.
Í tengslum við verkefnið hafa verið stofnuð réttindaráð í leikskólunum en í þeim fá börnin tækifæri til að hafa áhrif. Umræður og verkefni sem tengjast aðgengi og þátttöku, jafnrétt og framkomu við skólafélaga hafa líka verið sett á dagskrá.
 
MARKMIÐ RÉTTINDASKÓLA UNICEF ERU:
  • Aukin þekking á mannréttindum, starfsfólk og börn auka þekkingu sína á réttindum barna
  • Lýðræði, börn fá reglubundin tækifæri til þess að taka þátt í ákvarðanatöku
  • Eldmóður fyrir mannréttindum , börn eru hvött til þess að beita sér fyrir réttindum sínum og annarra
  • Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi, stjórnendur vinna með markvissum hætti að því að gera sáttmálann að viðmiði í stjórnsýslu skóla- og frístundastarfs
  • Samstarf, samstarf skóla við alla sem koma að uppeldi barnsins með það að markmiði að raungera réttindi barnsins.

Við þökkum foreldrum kærlega fyrir komuna á viðburðinn og var það gleðilegt að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta.
Fréttamynd - Viðurkenning sem réttindaskóli UNICEF

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn