Réttindaskóli UNICEF

UNICEF á Íslandi vinnur með 5 leikskólum í Kópavogi að þróun Réttindaleikskóla UNICEF þar sem unnið er markvisst með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Reynsla er komin á innleiðingu Barnasáttmálans á grunnskólastigi en verið er að þróa og innleiða hugmyndafræðina í leikskólum.
Hugmyndafræði Réttindaskóla UNICEF byggir á heildstæðri sýn á sambandi barna, skóla og samfélags.

Markmið Réttindaskóla UNICEF eru:

  • Aukin þekking á mannréttindum - starfsfólk og börn auka þekkingu sína á réttindum barna
  • Lýðræði - börn fá reglubundin tækifæri til þess að taka þátt í ákvarðanatöku
  • Eldmóður fyrir mannréttindum - börn eru hvött til þess að beita sér fyrir réttindum sínum og annarra
  • Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi - stjórnendur vinna með markvissum hætti að því að gera sáttmálann að viðmiði í stjórnsýslu skóla- og frístundastarfs
  • Samstarf - samstarf skóla við alla sem koma að uppeldi barnsins með það að markmiði að raungera réttindi barnsins.

Með þessi fimm mælanlegu langtímamarkmið réttindaskóla að leiðarljósi stefna Réttindaskólar að því að börn: læri um réttindi sín - læri í umhverfi sem styður við réttindi þeirra - læri að hafa áhrif og beiti sér fyrir réttindum sínum og annarra.

Leikskólarnir fimm í Kópavogi munu taka við viðurkenningu sem Réttindaleikskóli í tengslum við dag mannréttinda barna föstudaginn 18. nóvember næstkomandi í Salnum í Kópavogi. Þar munu elstu börn leikskólans taka þátt í athöfninni.

Eitt af leiðarstefum Barnasáttmálans eru reglubundin tækifæri til þess að taka þátt í ákvörðunum. Réttindaráð barna hefur því verið stofnað í Furugrund á meðal elstu barnanna. Á fyrsta fundi ráðsins var kosið um hvað ætti að vera í hádegismatinn þann 30. nóvember næstkomandi. Grjónagrautur fékk lýðræðislega kosningu og er því kominn á matseðil þann daginn.
Fréttamynd - Réttindaskóli UNICEF

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn