Alþjóðadagur kennara

Stjórnendur færðu kennurum rós í tilefni dagsins. Auk þess sem við áttum spjall við elstu árgangana okkar og spurðum þau út í kennarana sína. Hvað þeir gerðu fyrir þau og hvernig þau myndu lýsa þeim. Niðurstöðuna settum við á veggspjöld á eldri gangi og vakti það mikla lukku.
Alþjóðadagur kennara varpar kastljósinu beint að kennurum og veitir sýn inn í það mikilvæga starf sem þeir inna af hendi á degi hverjum. 
 
Það voru UNESCO, Menntamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, í samvinnu við Alþjóðasamband kennara sem tóku sig saman um að halda árlegan kennaradag til að vekja athygli á störfum kennara. UNESCO hefur á hverju ári lagt fram slagorð í tilefni dagsins. Að þessu sinni er slagorðið: The transformation of education begins with teachers! sem mætti útleggja sem svo: Umbreyting menntunar hefst hjá kennurum
 
Í yfirlýsingu UNESCO segir að alþjóðasamfélagið þurfi að taka höndum saman um að tryggja menntun til handa öllum börnum. Við margt er að glíma, svo sem undangenginn heimsfaraldur, stríðsátök, félagslegan ójöfnuð og hlýnun jarðar, svo nokkur atriði séu nefnd. Kennarar gegna mikilvægu hlutverki sem aldrei fyrr, þeir eru hjartað í menntakerfum heimsins, án þeirra er ógjörningur að veita nemendum gæðamenntun, segir UNESCO. 
 
Við í Furugrund erum afar stolt og þakklát fyrir okkar hæfileikaríka mannauð. Við erum afar vel skipuð af metnaðarfullum kennurum sem sinna starfi sínu af alúð, eljusemi og fagmennsku. Án okkar framúrskarandi kennara væri skólinn ekki samur. 
Við hvetjum foreldra til að skoða veggspjöldin sem börnin gerðu með ummælunum en þau eru staðsett á eldri gangi í Furugrund 1.
Fréttamynd - Alþjóðadagur kennara Fréttamynd - Alþjóðadagur kennara Fréttamynd - Alþjóðadagur kennara Fréttamynd - Alþjóðadagur kennara Fréttamynd - Alþjóðadagur kennara

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn