Helga Elínborg Jónsdóttir leikskólastjórinn okkar kveður.

Í dag, vann elsku Helga Elínborg Jónsdóttir leikskólastjórinn okkar, sinn síðasta vinnudag í leikskólanum Furugrund. Helga hóf störf í leikskólanum 1978 sem er sama ár og leikskólinn tók til starfa. Hún tók við stöðu leikskólastjóra 1986. Helga hefur í 44 ár sinnt hagsmunum skólans sem stækkað hefur og blómstrað undir styrkri stjórn hennar.

Ekki gengur að hugsa um leikskólann Furugrund án þess að Helga fylgi með en það má með sanni segja að hún hafi verið burðarás leikskólans frá fyrstu tíð. Ef einhverjum ætti að veita orðu þá væri það Helgu. Leikskólinn hefur orðið að mikilvægri þungamiðju í því hverfalífi sem hann er staðsettur en það er ekki sjálfgefið að slíkt gerist og skiptir þá máli hvaða skipstjóri er í brúnni, því Helga hefur stigið ölduna öll þessi ár og komið leikskóla fleyinu í höfn ár hvert við góðan orðstír.
Leiðarljós Helgu í starfi eru samstíga einkunnarorðum Furugrundar en með virðingu, hlýju, öryggi og trausti þá hefur hún stýrt starfsmannahópnum öll þessi ár enda hefur aðalsmerki skólans verið mannauðurinn en skólinn er þekktur fyrir jafnvægi í starfsmannahaldi og litla starfsmannaveltu.

Við starfsmenn leikskólans þökkum henni kærlega fyrir hennar handleiðslu í gegnum árin og óskum henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem nú taka við.

Fréttamynd - Helga Elínborg Jónsdóttir leikskólastjórinn okkar kveður. Fréttamynd - Helga Elínborg Jónsdóttir leikskólastjórinn okkar kveður.

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn