Sími  441 6300 - 840 2678

Moldvarpan og Drottningin 2014

Fyrirsagnalisti

Fundur hér á Íslandi - 10.7.2014

Nú er fundi okkar í Comeniusarverkefninu lokið. Gestirnir okkar dvöldu hjá okkur frá sunnudeginum 8. júní til föstudagsins 13. júní. Það var að heyra á gestunum að þeir færu heim sérlega ángæðir með góðar minningar frá dvöl sinni hér á Íslandi. Af samtölum við þá þá fór heimsóknin fram úr væntingum þeirra. Þau vissu að það væri fallegt hér á landi, en ekki alveg svona mikið. Einn gestanna táraðist þegar hún var að segja frá upplifun sinni af Gullna hringnum. Við þökkum öllum þeim sem gerðu okkur það kleift að gera heimsókn vina okkar svo ánægjulega. Við Furugrundarfólk erum algerlega frábær og þegar við leggjumst saman á eitt þá erum við svo sannarlega stórveldi. Hér má sjá myndir. Takk fyrir og góða helgi.


Sumarhátíð 2014 - 10.7.2014

Við héldum glæsilega sumarhátíð síðdegis í dag. Það gekk allt upp hjá okkur, veðrið, glatt fólk og góður matur. Gestirnir okkar voru himinlifandi yfir því hversu glöð og hamingjusöm við erum í Furugrund. Þau skemmtu sér vel og fannst allt sem við gerum áhugavert. Hér má sjá myndir frá sumarhátíðinni, en væntanlegar eru fleiri.

Ísland - Búlgaría - 23.5.2014

Við vorum að tefla í dag við vini okkar í leikskólanum "Sv. Sv. Kiril i Metodij" í Búlgaríu. Í fyrstu virtist allt ganga vel, en samt vorum við ekki alveg viss um að þau væru með taflmennina á réttum stað. Þau skildu okkur ekki alveg þegar við bentum á það í byrjun leiks. Það kom svo í ljós síðar þegar við sögðum skák á þau að ekki var allt með felldu. Málið var að þau notast við rússneskt stafróf og því voru ekki evrópskir stafir á taflborðinu. Leikskólastjórinn hafði skrifað þá inn á taflborðið og gerði það því miður vitlaust. Þess vegna var það þegar leið á leikinn að allt fór í kross. Við buðum þeim þá bara jafntefli og allir skildu sáttir.  Þetta var gaman eftir sem áður og makalaust hvernig hægt er að vinna á fjarlægðinni á milli okkar með aðstoð tölvutækninnar.

Moldi á menningarhátíð - 22.5.2014

Moldi tók þátt í Ormadögum, menningarhátíð barnanna hér í Kópavogi. Elstu börnin fóru með hann á þriðjudag og miðvikudag í heimsókn á safnasvæðið og fræddust um orma. Fyrst var farið í Náttúrufræðistofu og hlustað á erindi um orma og svo var haldið upp í Bókasafnið og þar var lesin sagan um lifruna ljótu. Börnin skemmtu sér vel og fannst erindið í Náttúrufræðistofu sérlega áhugavert.


Moldi fór í útskriftarferð - 9.5.2014

Moldi, elstu börnin og kennarar þeirra fóru í stórkostlega útskriftarferð í Ölfusborgir. Við vorum ekki alveg heppin með veður í gær, en samt sem áður létum það ekki á okkur fá. Gengum í Hveragerði og heimsóttum Kjörís. Þar var börnunum sýnt myndband sem sýnir hvernig framleiðsluferlið er í ísgerð. Mjög áhugavert og á meðan borðuðu þau frostpinna. Þá var okkur boðið að líta í frystigeymsluna og fannst börnunum það mikið ævintýri. Eftir heimsókn í Kjörís var ferðinni heitið í Bónus. Þar fyrir utan eru leiktæki sem börnin léku sér í. Við fengum okkur meiri ís þrátt fyrir mikla rigningu. Á heimleið í bústaðina aftur skoðuðum við það sem áður var Eden. Börnunum þótti það afar áhugavert. Þegar heim var komið var ætlunin að fara í heitapottinn, en það var bara ekkert heitt vatn svo engin heitapottsferð að þessu sinni. Við komumst svo að því í morgun hvers vegna það var heitavatnslaust. Brussa tröllkona sem býr í fjallinu sagði okkur með bréfi að hún væri ekki heima. Hún væri í afmæli kærasta síns, honum Skralla. Skralli á heitan pott og af því hann á afmæli ákvað hann að baða sig. Það tók tvo daga að renna í pottinn og þess vegna kláraðist allt vatnið í Ölfusborgum. Við vorum nú eiginlega svolítið svekt á þessum tröllkarli sem stal öllu heitavatninu frá okkur.
Það sváfu flest allir mjög vel í sumarbústaðnum, en þrátt fyrir það voru margir mjög framlágir á heimleiðinni eftir frábæra útskriftarferð. Takk kærlega fyrir skemmtilega ferð. Hér má sjá rúmlega 500 ljósmyndir, en við reynum svo að koma inn myndbandi um helgina.

Moldi í sveitarferð - 3.5.2014

Í dag fórum við í frábæra sveitarferð að bænum Bjarteyjarsandi í Hvalfirði. að sjálfsögðu fékk Moldi að koma með og skemmti hann sér konunglega. Við heilsuðum upp á dýrin og fórum í fjöruferð. Svo voru pylsur grillaðar og borðað nesti í fyrirtaks aðstöðu á bænum.  Hér má sjá fleiri myndir.


Gróðursetning - 29.4.2014

Þessa dagana eru börnin að gróðursetja. Þau ætla að rækta papriku, blóm og margskonar grænmeti. Hér má sjá þau við vinnu sína.

Fundur í Ízmit í Tyrklandi - 15.4.2014

Þær eru komnar heim úr stórkostlegri för á fund í Comeníusarverkefninu

Fjóla og Erla. Þar upplifðu þær ógleymanlega hluti, sambland af menningu, listum og trúarbrögðum. Farið var til Istanbúl og skoðuð ein stærsta moska veraldar, hallir og fleiri merkisstaðir. Börnin í vinaleikskólanum okkar tóku vel á móti gestunum og sýndu þjóðdansa og ýmis verkefni sem þau hafa verið að vinna að í tengslum við verkefnið. Heimsóknin var í alla staði afskaplega vel heppnuð og gestrisni þeirra Tyrkja stórkostleg. Hér má sjá

The Mole and The Queen


fleiri myndir.

Moldar - 17.3.2014

Elstu börnin eru að vinna að verkefni sem á að taka yfir í nokkra mánuði. Þau ætla að búa til Molda og svo búa þeim heimili í holu. Hægt er að fylgjast með verkefninu hér á myndasíðunni.

.

 

..

Samstarfslöndin - 5.3.2014

Elstu börnin hafa undanfarið verið að skoða hvar samstarfs leikskólarnir eru staðsettir. Þau hafa skoðað þjóðmenningu og fána hinna landana, Búlgaríu, Slóvakíu, Tékkland, Ungverjaland og Tyrkland. Börnunum þykir þetta afar áhugavert og eru dugleg að læra þjóðfána landanna. Sjá fleiri myndir hér.

 

.

Moldi fór í heimsókn - 3.3.2014

Um helgina var hann Moldi á Álfasteini í heimsókn hjá systkinum. Aðallega var hann þó í heimsókn hjá stúlkunni sem er á Álfasteini. Moldi kom til baka sæll og glaður ánægður eftir góða helgardvöl. Hann fékk að fara í IKEA og það var mjög spennandi. Svo fékk hann að gæða sér á bollum og þær voru mjög góðar. Hér má sjá fleiri myndir frá heimsókninni.


Skák og mát - 26.2.2014

Í dag vourm við að tefla við vini okkar úti í Evrópu. Við notuðum Skype til þess að geta teflt saman. Við vorum í okkar leikskóla og vinir okkar í Materská škola Mošovce  í  Mošovce í Slovakiu telfdu í sínum leikskóla. Þetta tókst bara ljómandi vel. Vinir okkar unnu í peðatafli og svo gáfum við leikinn í fullri skák.

Moldi fór heim - 18.2.2014

Moldi á Álfasteini heldur áfram að fara heim með börnunum um helgar. Í þetta sinn fór hann heim með ungum pilti sem á eldri bróðir sem þekkir Molda vel af því hann var í fyrra í leikskólanum, en er núna byrjaður í Snælandsskóla. Moldi lenti í mörgum ævintýrum um helgina, hann fór í líkamsrækt þar sem hann fór í krakkazumba. Hann var duglegur að leika sér við piltana, en svo lenti hann í smá slysi. Hann datt á hausinn og fékk gat á höfuðið. Það þurfti að sauma nokkur spor og setja plástur. Aumingja Moldi, en hann var samt orðinn bráðhress þegar hann kom í leikskólann aftur ánægður með ævintýri helgarinnar.

Málað - 12.2.2014

Yngstu börnin á Dropasteini voru að mála Molda í hópastarfi í dag. Þau eru einstaklega hæfileikarík eins og sjá má.

Moldi fór á bókasafnið - 6.2.2014

Í dag fór Moldi með börnunum í heimsókn í bókasafnið. Eins og sjá má á myndunum þá hafði hann gaman af.Vinir okkar - 5.2.2014

Í þessari viku tóku börnin í Regnbogahóp fyrir fyrstu tvö löndin sem eru í samstarfi við okkur í Cominiusarverkefninu. Löndin eru 6 talsins en börnin byrjuðu á að kynnast Slóvakíu og Tékkland. Við sýndum þeim þjóðarfána þeirra og börnin teiknuðu myndir af þeim.

Fundur í Kolín í Tékklandi - 3.2.2014

Helga og Fjóla eru komnar heim eftir vel heppnaðan fund með vinum okkar í Comeniusarverkefninu The Mole and The Queen  í Kolín í Tékklandi.
Vikan var stórkostleg og gestgjafarnir einstaklega gestrisnir. Farið var með gestina í dagsferð til Prag, í heimsókn til bæjarstjórans og í skoðunarferðir um nágrennið.  Fundað var um mörg atriði í verkefninu og það sem er framundan. Fundurinn styrkti enn frekar tengsl okkar við vini okkar í verkefninu og verður gaman að hitta þau að nýju í Tyrklandi. Lokahátíð verkefnisins verður svo hér á Íslandi vikuna 8. til 13. júní.  Við munum halda áfram að skrifa um það sem við erum að fást við og tengist verkefninu hér á heimasíðunni okkar og á sameiginlegu heimasíðu verkefnisins. Hér má sjá myndir  sem teknar voru í Kolín og Prag.

Moldvörpur með grafík - 30.1.2014

Yngstu börnin á Mánsteini og Dropasteini hafa undanfarið verið að vinna grafíkmyndir. Þau byrjuðu á því að teikna Molda, létu lím á strikin og svo var stenslað og úr varð grafíkmynd. Allar myndirnar þeirra eru dásamlega fallegar eins og sjá má á myndunum.

Taflmenn - 29.1.2014

Elstu börnin voru þessa viku að skoða taflmenn og margskonar útgáfur af þeim. Nemendur veltu fyrir sér útliti taflmanna og sérkennum þeirra. Taflmennirnir voru síðan teiknaðir á blað. Sjá fleiri myndir hér.

Skákmót Furugrundar - 27.1.2014

Í gær var Dagur skákarinnar á Íslandi og í tilefni þess héldum við skákmót til þess að fagna þessum degi. Elstu börnin kepptu í peðaskák og eins og sjá má á myndunum skein áhuginn úr hverju andliti. Öll fengu börnin metalíu fyrir þátttöku í skákmótinu og barnið sem var í fyrsta sæti fékk viðurkenningarskjal. Sjá fleiri myndir.Leikur með ljós og skugga - 16.1.2014

Moldi fékk að leika sér með yngstu börnunum í dag. Þau voru að leika sér með ljós og skugga. Þetta var alveg sérlega skemmtilegur leikur eins og sjá má á myndunum.


Heimsókn í Náttúrufræðistofu - 13.1.2014

Moldi fékk að fara með í heimsókn í Náttúrufræðistofu Kópavogs. Hann var mjög áhugasamur um dýrin sem þar voru flest uppstoppuð. Hann hlustaði á fræðslu um fugla, en börnin eru einmitt að viða að sér fræðslu um þá. Mest gaman var að fara í strætó og fékk hann að sitja aleinn og börnin spenntu á hann belti.  Hér má sjá fleiri myndir úr ferðinni.


Moldar verða til - 9.1.2014

Börnin í Ofurhetjuhóp horfðu á teiknimynd um Molda og vini hans. Eftir áhorfið teiknuðu þau Molda og svo límdu þau niðurrifinn pappír inn á myndina. Úr urðu þessir skemmtilegu Moldar eins og sjá má á myndunum.  Sjá fleiri myndir hér.
Skógarferð - 8.1.2014

Við fórum öll í skógarferð í Asparlund í morgun. Þar höfðum við það huggulegt og sungum jólalög við varðeld. Við sendum einnig ljósker upp til himna. Hér má sjá fleiri myndir.

Jólaball - 8.12.2013

Í dag var jólaball leikskólans haldið í Snælandsskóla. Ballið byrjaði með danssýningu barnanna sem Dagný Björk stjórnaði og stóðu börnin sig með prýði öll sem eitt. Þá var dansað í kringum jólatréð og jólasveinn kíkti í heimsókn og gaf öllum börnunum mandarínur. Svo fengu allir sér veitingar og kakó og höfðu það notalegt saman. Hér koma myndir frá vel heppnuðu jólaballi.

Við bökum piparkökur - 3.12.2013

Í þessari viku höfum við verið að baka piparkökur. Við ætlum svo að bjóða pabba og mömmu að koma í morgunkaffi á föstudaginn og þá fá þau að smakka á piparkökunum okkar.

Jólakötturinn - 2.12.2013

Jólakötturinn

er óvættur í íslenskum þjóðsögum og er húsdýr hjá Grýlu og Leppalúða. Jólakötturinn er þekktur fyrir að éta börn sem ekki fá flíkur fyrir jólin.
Í dag fóru börnin fædd 2009 í Bókasafnið til þess að skoða og fræðast um Jólaköttinn. Sjá fleiri myndir hér.

The Yule Cat is a monster from Icelandic folklore, a huge and vicious cat said to lurk about the snowy countryside during Christmastime and eat people who have not received any new clothes to wear before Christmas Eve. The Yule Cat has become associated with other figures from Icelandic folklore as the house pet of the giantess Grýla and her sons, the Yule Lads.

The threat of being eaten by the Yule Cat was used by farmers as an incentive for their workers to finish processing the autumn wool before Christmas. The ones who took part in the work would be rewarded with new clothes, but otherwise get nothing and thus be preyed upon by the monstrous cat. The cat has alternatively been interpreted as merely eating away the food of ones without new clothes during Christmas feasts.Við lærum að dansa - 29.11.2013

Á föstudögum kemur hún Dagný Björk danskennari og kennir okkur að dansa.

Við gerum dagatal 2014 - 26.11.2013

Börnin á Mánasteini voru að búa til dagatal í dag. Við fengum það verkefni að búa til febrúar og júní 2014. Börnin voru áhugasöm að myndskreyta mánuðina eins og sjá má.

Moldi fer heim - 25.11.2013

Um helgina fór Moldi á Álfasteini heim til einnar stúlkunnar og reyndar bróður hennar sem er nemi á Dropasteini. Moldi átti góða helgi með þeim systkinum. Þau voru duglega að lesa fyrir hann og svo fékk hann að sofa í rúmi stúlkunnar. Á laugardaginn fór hann með að horfa á bróðurinn keppa í handbolta með HK. Moldi var svo ánægður þegar hann koma í leikskólann eftir skemmtilega helgi. Sjá má á myndunum hvað hann var glaður í heimsókninni.

Stjörnur í Sjónvarpinu - In the TV - 14.11.2013

Elstu börnin okkar fóru prúðbúin í upptökusal Ríkissjónvarpssins í dag. Þeim var boðið að vera þátttakendur í Jólastundinni okkar. Það verður spennandi að sjá útkomuna sem verður væntanlega sýnd á Jóladag. Börnin voru alveg til fyrirmyndar, prúð og yndisleg í alla staði eins og sjá má á myndunum. Hér má sjá frétt um heimsóknina á vef RUV.

Þjóðminjasafið - The National Museum - 14.11.2013

Við fórum í heimsókn í Þjóðminjasafnið í dag til þess að kynna okkur þjóðlíf og menningu eins og hún var í gamla daga.

Moldi fer í heimsókn í Sorpu - 6.11.2013

Í tilefni Viku í rusli fórum við í heimsókn í Sorpu í dag og að sjálfsögðu fór Moldi með okkur. . Börnin voru afar áhugasöm og frábært hvað þau voru meðvituð um umhverfismál því þau gátu svarað öllum fyrirspurnum leiðbeinandans. Við ætlum svo að halda áfram að ræða um ferðina í næstu viku.

Horft á Moldateiknimynd - 6.11.2013

Börnin á Dvergasteini voru að horfa á Moldamynd í dag og svo leiruðu þau það sem þeim fannst athyglisverðast í teiknimyndinni.

Moldi í snjónum - 30.10.2013

myyraa

Í dag horfðu börnin á Dvergasteini á mynd sem var um Molda og snjókarlinn vin hans. Snjókarlinn var svo hamingjusamur að vera til í snjónum. Svo fór að vora og snjórinn bráðnaði, Moldi ákvað að koma vini sínum til bjargar og flutti hann upp til fjalla þar sem var kaldara. Snjókarlinn tók aftur gleði sína. Þegar það fór að hausta aftur fór Moldi aftur og sótti vin sinn. Börnin ræddu um eiginleika snjósins, hvað verður um snjóinn þegar hann bráðnar?

Náttúrufræðistofa Kópavogs - 29.10.2013

Við fórum í heimsókn í Náttúrufræðistofu Kópavogs í dag. Það gekk vel og var vel tekið á móti okkur. Við skoðuðum við margvísleg dýr s.s. fiska, hvali, fugla, refi, krabba ofl. Við fengum að vita margt um lífshætti þessara dýra og lífsskilyrði. Hægt er að fræðast meira um safnið á http://natkop.is/

Bangsadagur - 25.10.2013

Við höfðum það ósköp "kósý" í dag í náttfötunum á Alþjóðadegi bangsans. Öll börnin komu með bangsa í leikskólann og Moldi var glaður að eignast svona marga vini á einum degi.  Hér má sjá fleiri myndir frá því í dag.
bangsadagur


Við erum að tefla - 23.10.2013

Um hádegið eru töflin tekin fram og þá er telft. Elstu börnin eru að læra mannganginn. Þau eru orðin nokkuð flink í peðaskák og tefla reglulega saman í daglegu starfi. Í hádeginu er verið að kenna þeim að tefla með öllum taflmönnunum. Til þess eru notaðir leikir þar sem hver og einn taflmaður er tekinn inn í leikinn einn í einu. Eins og sjá má á myndunum eru börnin mjög áhugasöm við taflið.

Fundur í Mošovce í Slóvakíu - 15.10.2013

Í síðustu viku dvöldu þær Fjóla og Nanna í þorpinu Mošovce í Slóvakíu á fundi með vinum okkar í Comeniusarverkefninu The Mole and The Queen.

Vikan var stórkostleg og gestgjafarnir einstaklega gestrisnir. Farið var með gestina á safn, í fjallgöngu, heimsókn á sveitabæ og margt fleira. Fundað var um mörg atriði í verkefninu og það sem er framundan og haldin var vinnustofa þar sem þátttakendum var kennt að búa til hreyfimyndir. Í lok fundarins var svo haldinn glæsilegur kvöldverður sem verður eftirminnilegur öllum þátttakendum. Fundurinn styrkti enn frekar tengsl okkar við vini okkar í verkefninu og það gerir allt samstarf auðveldara í vetur. Við munum halda áfram að skrifa um það sem við erum að fást við og tengist verkefninu á hér á heimasíðunni. Hér má sjá á annað hundrað mynda sem teknar voru í Mošovce.

Hreyfimyndagerð - 9.10.2013

Elstu börnin eru þessa dagana að búa til hreyfimynd um Molda. Til þess nota þau iPadinn. Þau byrjuðu á því að semja sögu og svo hafa teiknað og útbúið leikmynd og leikendur. Þau taka svo öll þátt í að taka upp myndina,klippa hana til og ganga þannig frá henni að hægt sé að birta hana á YouTube.  Hér má sjá fleiri myndir frá vinnu þeirra.
hreyfimyndagerd

Álfasteins Moldi í heimsókn - 7.10.2013

Moldi á Álfasteini er búinn að eiga frábæra helgi heima hjá vinkonu sinni. Hann fékk m.a. að fara með til þess að taka upp kartöflur. Moldi var þreyttur eftir ævintýrið í kartöflugarðinum og var óskaplega feginn þegar vinkona hans settist niður með honum og las fyrir hann bók.

mosaic2d45570a12d059e7dc7e4d74c6c3c3ec5f73b314

Moldar í röðum - 11.9.2013

Börnin á Dropasteini tóku sig til og sköpuðu marga Molda sem þau létu upp á vegg í röð. Þeir eru hver öðurm glæsilegri. Frábært hjá þeim. Sjá fleiri myndir.

Horft á Molda - 10.9.2013

Í dag horfðu yngri börnin á fyrstu teiknimyndina af Molda á þessu skólaári. Stóri Moldi fékk að vera með og tók þátt í umræðum eftir myndina. Við horfðum á KRTKOVA DOBRODRUZSTVÍ 5 sem gæt þítt Moldvarpan og Örninn moldi fann arnarunga sem hún elur upp og seinna  bjargar örninn Molda. Þannig hjálpast vinirnir að. 

  Góð uppskera - 16.8.2013

Við erum svo sannarlega að uppskera eins og við sáðum í skólagörðunum. Börnin hafa farið undanfarna morgna til þess að taka upp þetta dásamlega grænmeti  sem við gæðum okkur á í hádeginu. Við komum til með að borða okkar eigin uppskeru út allan ágústmánuð vegna þess hversu uppskeran er góð. Sjá fleiri myndir.

Moldi ræktar grænmeti - 21.6.2013

Eins og undanfarin ár þá tökum við þátt í starfi skólagarðanna hér í Fossvogi. Börnin fara daglega í smáum hópum til þess að planta grænmeti, reita arfa, vökva og fl. Að sjálfsögðu hefur Moldi fengið að fara með. Sjá fleiri myndir.

Sumarhátíð - 5.6.2013

Sumarhátíð Foreldrafélagsins var haldin 5. júní sl. í samstarfi við foreldrafélög Grænatúns og Álfatúns. Hátíðin tókst ákaflega vel og var ekki að sjá annað en börn og foreldrar skemmtu sér vel. Farið var í skrúðgöngu um hverfið, horft á skemmtiatriði og ekki hvað síst borðaðar grillaðar pylsur.  Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru, en við viljum gjarnan fá fleiri myndir frá hátíðinni. Þeir sem tóku myndir og vilja deila þeim með okkur hinum er bent á að senda okkur myndir á netfangið fjolath(hjá)kopavogur.is eða koma með í leikskólann á minnislykli.

 

 

Fundur í Dve Mogli í Búlgaríu - 21.5.2013

Fjóla, Sólveig og Karólína sóttu í síðustu viku 13. til 17. maí fund í Comeniusarverkefninu Moldvarpan og Drottningin í  Búlgaríu. Ferðin var í alla staði vel lukkuð og gestristni Búlgara engu lík. Gist var í borginni Ruse sem er um 40 km. frá smábænum Dve Mogli þar sem leikskólinn Sv. Sv. Kiril i Metodij er staðsettur. Malenka leikskólastjóri og starfsfólk hennar sá til þess að engum leiddist á meðan gestirnir dvöldu hjá þeim. Á dagskrá var umræða um stöðu verkefnisins og framhald þess. Einnig var farið í ferðir til þess að sýna gestunum  menningararfleið þeirra Búlgara. Á meðan á dvölinni stóð voru böndin treyst og þátttakendur í verkefninu náðu að kynnast enn betur en áður. Það er svo mikilvægt upp á framtíð verkefnisins að þátttakendur kynnist hver örðum og þá ekki sýst menningu og kennsluháttum á hverjum stað. Á fundinum var tekin ákvörðun um að færa stjórn verkefnisins yfir til Íslands og verður Fjóla hér með verkefnisstjóri og heldur utan um allt sem varðar verkefnið í heild. Opnuð var ný heimasíða verkefnisins og ákvarðanir teknar um næstu viðburði og verkefni. Hér má sjá rúmlega 400 myndir sem teknar voru í Búlgaríu. Við höfum síðan áform um að gera myndband til þess að gera ferðasögunni enn betri skil. Hér má sjá myndirnar.


Moldi í sveitinni - 11.5.2013

Í dag fórum við í sveitaferð í boði Foreldrafélagsins. Okkur var vel tekið á bænum Miðdal í Kjós. Börn og foreldrar áttu saman góða stund við að skoða dýrin, spjalla og borða grillaðar pylsur. Moldi fékk að sjálfsögðu að fara með í sveitina og reyndi hann að koma sér sem víðast inn á ljósmyndir sem teknar voru í sveitinni. Hér má sjá fleiri myndir.

Útskriftarferð í Ölfusborgir - 4.5.2013

Það er hefð fyrir því að elstu börnin í leikskólanum fari í útskriftarferð yfir eina nótt í maí í Ölfusborgir. Ölfusborgir er sumarhúsahverfi á Suðurlandi Íslands í nágrenni smábæjar sem heitir Hveragerði. Í nágrenninu er jarðhitasvæði og víða í Hveragerði er að finna heita hveri. Það kemur meira að segja víða upp heitt vatn í gangstéttum og akbrautum. 

Fimmtudaginn 2. maí til föstudagins 3. maí fórum við í útskriftarferðina þetta árið og auðvitað fengu Moldarnir okkar að koma með. Þeir skemmtu sér konunglega eins og sjá má í meðfylgjandi myndböndum.

Dagur jarðar - 22.4.2013

dagurjardar

Í dag er Dagur jarðar  haldinn hátíðlegur um allan heim og Dagur umhverfisins  hér á landi er haldinn 25. apríl ár hvert. Af því að við erum Grænfánaskóli gerðum við að gera okkur dagamun. Við stokkuðum upp starfið og buðum börnunum upp á vinnustofur. Umhverfisnefnd leikskólans sá um alla skipulagningu og var dagurinn ánægjulegur öllum í leikskólanum. Það er gaman að breyta til annað slagið og gera eitthvað sem við höfum ekki gert áður. Fyrirkomulagið var eins og hér má sjá.
Við útbjuggum myndir sem táknuðu hverja og eina vinnustofu og svo drógu börnin sig í vinnustofurnar. Hér má sjá fleiri myndir.

Páskarnir hjá Molda - 18.4.2013

Moldi fékk að fara heim  með bræðrum sem eru í leikskólanum um páskana. Þar dvaldi hann í góðu yfirlæti. Hann fékk m.a. að fara í gönguferð um dalinn okkar Fossvoginn. Á páskadagsmorgun fékk hann pákaegg eins og hefð er fyrir hér á Íslandi. Páskaegg á íslandi er úr súkkulaði og inn í því er sælgæti og málsháttur sem alltaf er spennandi að finna.  Hér má sjá fleiri myndir.

Moldi fór á Laugarvatn - 25.3.2013

Börnin á Álfasteini halda áfram að taka Molda með sér heim um helgar. Um síðustu helgi fékk Moldi að fara með einni stúlkunni í ferðalag á Laugarvatn. Þar voru þau í sumarbústað. Við Laugarvatn lék Moldi sér í sandinum og þau sáu m.a. dauðan fisk. Stúlkan fór í sundlaug með vinum sínum og Moldi beið í bílnum á meðan. Moldi fékk að sjá flugdreka fara á loft og fékk að leika sér í billjard. Moldi fékk nóg að borða, köku og páskaegg. Það þótti honum rosalega gott. Á heimleiðinni kom Moldi við á Þingvöllum sem er þjóðgarður hér á Íslandi og á sér merkilega sögu.

 

Moldi og páskaperlur - 20.3.2013

Í þessari viku voru Bílahópur og Fiskahópur saman í hópavinnu og var ýmislegt brallað í þessum tíma. Krakkarnir kláruðu Moldaverkefnið sem þau eru búin að vinna í undanfarnar vikur, teiknuðu frjálst og svo gerði hver og einn páskaskraut úr perlum sem fær að fara heim fyrir páska. :) Eins og sést á myndunum var þetta skemmtilegur tími og allir voru mjög einbeittir að vinna verkefni dagsins. :)

Framhald af vinnu Krakkabjarnarhóps - 6.3.2013

Börnin í Krakkabjarnarhóp héldu áfram að vinna með myndina um Molda og vini hans. Þau máluðu aðalpersónurnar og umhverfið og síðan ætla þau að búa til stóra veggmynd.


Moldi fór út í óveður - 6.3.2013

Moldi fékk að fara út í dag með elstu piltunum, Fjólu og Magnúsi. Það geysaði óveður úti, en þau létu það ekkert á sig fá. Byrjað var á því að moka snjó frá hurðum leikskólans því erfitt var að komast inn og út um hurðir. Svo var byrjað á því að byggja snjóhús. Þegar snjóhússmíðinni var lokið fóru pitlarnir allir inn í snjóhúsið ásamt Molda. Piltarnir undu sér vel úti í snjónum og komu sveittir og glaðir inn úr frískandi útiveru.  Sjá fleiri myndir.


 

 

Horft á Molda og vini hans - 1.3.2013

moldiBörnin á Mánasteini horfðu í dag á þrjár stuttar teiknimyndir með Molda og vinum hans.

Krtek a Buldozer
Moldi er að hafa það gott í skóginum sínum þegar hann rekst allt í einu á staur... og það marga staura. Það var verið að gera hraðbraut gegnum skóginn. moldi ákveður að breyta stefnu stauranna og beinir hraðbrautinni út úr skóginum.

Krtek Chemikem

Moldi finnur marga kassa og inn í þeim leynist efnafræðidót og kubbar sem hann leikur sér með.

Krtek Vejce

Það var hæna sem verpti eggi og Moldi var að reyna að bjóða öðrum eggið hennar því hún yfirgaf það. Fyrst bauð hann músum eggið, svo kanínunum, hundunum og svo fleiri dýrum, en enginn vildi eggið. Þá kom þar að eggjabíll og eggið fór í verksmiðju. Allt í einu kom ungi út úr egginu þegar eggið var komið á færibandið í verksmiðjunni. moldi og unginn enduðu óvart í bakaríi með öðrum eggjum. moldi og unginn enduðu síðan í kassa með brauði. Moldi fann að lokum hænuna og skilaði unganum til hennar og gaf þeim brauðið.

 

Skák og Moldi - 27.2.2013

Í þessari viku byrjuðu Bílahópur og Fiskahópur að læra að tefla peðaskák, allir fengu að prófa að tefla einn leik og þótti öllum spennandi að prófa. Svo horfðum við á mynd um hann Molda vin okkar sem við ætlum svo að vinna meira með í næsta tíma :)

Moldi og Krakkabjarnarhópur - 27.2.2013

Í dag horfðu börnin í Krakkabjarnarhóp á mynd um hann Molda. Í myndinni lenti Moldi í því óhappi að það kom gat á garðslönguna hans þegar hann var að vökva blómin í sólinni. Hann reynir ýmsar aðferðir til að gera við slönguna og músin og froskurinn vinir hans hjálpa honum.

Börnin æfðu sig líka í peðaskák og munum halda því áfram. Það væri frábær ef foreldrar myndu tefla heima með börnunum.

Hér eru upplýsingar um Comeniusarverkefnið sem við erum þátttakendur í og mun standa yfir til vors 2014. 

 

Fjallað um verkefnið í fjölmiðlum í Slóvakíu - 27.2.2013

Vinaleikskólinn okkar í Turčianske Teplice í Slóvakíu var umfjöllunarefni í slóvenskum fjölmiðli vegna skákverkefnisins í Comeniusarverkefninu okkar "Moldvarpan og Drottningin".  Fjallað er um verkefnið í blaðagrein og sagt frá þátt okkar í Furugrund í verkefninu, en það er einmitt okkar hlutverk að stjórna skákhluta þess. Við erum ákaflega stolt af þeim vinum okkar og hvað þeim gengur vel. Við vildum svo gjarnan hafa verið í meira sambandi við samstarfsskólana okkar eins og til stóð. Við erum búin að vera að bíða eftir betri nettenginu í leikskólanum okkar frá því í fyrrasumar til þess að við getum verið í beinu sambandi við vini okkar. Við erum orðin verulega óþolinmóð að bíða, nú er langt liðið á fyrsta ár verkefnisins og ferlega hallærislegt að við hér á þessu tæknivædda landi skulum ekki vera betur búin með nettengingu.

Hér má sjá greinina um vini okkar og við látum fylgja hér myndir frá þeim.

 

Slovakiaskak1Slovakiaskak3

Eldað fyrir Molda - 27.2.2013

Í gærmorgun hélt einn pilturinn á Álfasteini matarboð fyrir Molda. Moldi fékk að fylgjast með á meðan að maturinn var eldaður. Þannig gat hann lært að elda mat. Þegar eldamennskunni var lokið var lagt á borð og þeir félagar gæddu sér á góðum veitingum.

 

..og við teflum og teflum - 27.2.2013

Í febrúar höfum við lagt áherslu á að börnin okkar sem fædd eru 2008 læri að tefla. Við höfum því verið með sérstakar skákstundir með fáum börnum í einu. Við höfum getað notað stundirnar í hádeginu til þess því þá er ró í húsinu og börnin geta auðveldlega einbeitt sér. Elstu börnin eru orðin geysilega flink og eru góðar fyrirmyndir fyrir þau yngri í daglegu starfi. Við ætlum svo að fikra okkur áfram og byrja í mars að kenna börnunum sem fædd eru 2009 að tefla peðaskák.

 

Konukaffi - 22.2.2013

Í tilefni konudagsins sem verður nk. sunnudag buðum við mömmum og ömmum í morgunkaffi í dag.  Konudagur er fyrsti dagur Góu samkvæmt gömlu tímatali á Íslandi.

 

Aðdráttarafl, sýning í Hafnarborg - 22.2.2013

Í þessari viku fóru öll börn fædd 2008 og kennarar þeirra í Hafnarfjörð á safn sem heitir Hafnarborg. Þar sáu þau sýningu sem heitir Aðdráttarafl - hringlaga hreyfing, verk eftir Björk Viggósdóttur listakonu. Þar fengu bæði börn og fullorðnir að róla sér í rólum sem voru eins og fallhlífar. Börnin fengu einnig að klifra í köðlum. Þetta var mjög skemmtilegt og spennandi og allir skemmtu sér vel. Þau þurftu að taka tvo strætisvagna báðar leiðir svo þetta var heilmikið ferðalag.  

 

Veisla á öskudegi - 13.2.2013

Það var fjör í Furugrundinni í dag. Börn og starfsmenn skemmtu sér vel við dans og fleira. Við slógum köttinn úr tunnunni og borðuðum nammi og snakk. Að sjálfsögðu tókum við helling af myndum sem hægt er að skoða hér.

Skákmót Furugrundar - 29.1.2013

26. janúar ár hvert er haldinn hátíðlegur Dagur skákarinnar og í tilefni þess og einnig vegna þátttöku okkar í Comeniusarverkefninu Moldvarpan og Drottningin héldum við skákmót fyrir elstu börnin í Furugrund mánudaginn 28. janúar. Börnin stóðu sig með prýði og fengu öll medalíu í lok mótsins og sigurvegarinn fékk auk þess viðurkenningarskjal.

Þorrablót - 23.1.2013

Í dag blótuðum við þorrann. Börnin voru búin að búa til höfuðföt og undirbúa daginn. Það skein ánægja úr hverju andliti og mikið var borðað af þjóðlegum réttum.  Hér koma myndir frá öllum deildum:

 

Kuldalegt - 15.1.2013

Það getur verið kalt á Íslandi. Í dag var 5 gráðu frost, en Moldi var bara glaður þrátt fyrir kuldann.

Moldi í skógarferð - 14.1.2013

Moldi fékk að fara með elstu stúlkunum í skógarferð í dag. Hann byrjaði á því að gefa öndunum sem voru mjög svangar enda kalt í veðri. Svo var haldið í skóginn og á leiðinni hitti hann hund sem var mjög vinalegur við hann og fékk að smakka snjó.  Í skóginum fékk hann Moldi svo að prufa að tálga með stúlkunum og svo leika sér í trjánum.

Gjöf frá Tékklandi - 14.1.2013

Í dag barst okkur stórt umslag frá vinum okkar í leikskólanum í Kolin í Tékklandi. Börnin á Dropasteini fengu að opna umslagið og viti menn í því var þetta fallega dagatal. Börnin vinir okkar í Kolin höfðu teiknað myndir fyrir hvern mánuð ársins svo núna höfum við myndir frá þeim uppi á vegg allt árið 2012. Takk kærlega fyrir þessa fallegu gjöf.
Börnin reyndu að átta sig á því hvar Kolin í Tékklandi er með aðstoð hnattlíkansins og komust að því að það er nokkuð langt frá okkur. Til þess að komast þangað þyrftum við að fara með flugvél.

Moldi gefur öndunum - 14.1.2013

Þrátt fyrir snjó og kulda þá ákvað Moldi að fara með börnunum á yngri deildunum að gefa öndunum brauð.

Eins og þið sjáið þá skemmti hann sér vel þrátt fyrir að vera ekki alveg viss um hvað þessi fiðruðu fyrirbæri væru.

Framundan í verkefninu - 13.1.2013

logoEinhverjir kunna að halda að janúar verði rólegur mánuður í leikskólanum, en svo er nú aldeilis ekki hjá okkur. Við höfum alltaf nóg að gera. Núna er hópastarfið farið í gang og við höldum einnig áfram að vinna að Comeniusarverkefninu Moldvarpan og Drottningin. Í janúar skilum við af okkur fimm síðna bækingi með yfirliti yfir það sem við höfum verið að gera í verkefninu. Við útbjuggum einnig bækling um mikilvægi góðrar tannheilsu fyrir vini okkar úti í Evrópu. Framundan eru svo margir viðburðir sem óbeint tengjast verkefninu og við munum kynna fyrir vinum okkar í hinum leikskólunum.
Við ætlum að blóta Þorra miðvikudaginn 23. janúar og það er hefð sem örugglega kemur vinum okkar nokkuð á óvart. Við ætlum að halda skákmót elstu barnanna í tilefni af Degi skákarinnar og svo er framundan hefðir eins og bolludagur, sprengidagur og öskudagur, hver og einn með sínum hefðum.
Í tengslum við Comeniusar verkefnið var ákveðið að sækja um tvennskonar verkefni til Evrópubandalagsins. Annar vegar að fá gestakennara í leikskólann. Með því bjóðum við nýútskrifuðum leikskólakennara einhverstaðar frá Evrópu að koma og starfa með okkur í 3. til 6. mánuði. Laun og annar kostnaður verður þá greiddur af EU. Hinsvegar ætlum við að sækja um það að fá að senda kennara frá okkur í 7. til 14. daga heimsókn í vinaskóla okkar í Evrópu. Nú þegar hafa tveir kennarar sýnt áhuga á að fara í heimsókn til Slóvakíu og til Tyrklands. Við munum svo taka á móti kennurum frá sömu leikskólum næsta skólaár. Það verður spennandi að takast á við þessi verkefni og við teljum að það geti ekki verið annað en skemmtilegt og fræðandi að hleypa heimdraganum örlítið.

Heimsókn í Sívertsenhús - 21.12.2012

Elstu börnin fóru ásamt Molda í heimsókn í Sívertssenhúsið í Hafnarfirði í dag. Þar fengu þau að kynnast því hvernig jólin voru í gamla daga. Ung stúlka tók á móti okkur og fylgdi okkur um húsið. Þegar við vorum komin í eldhúsið spratt allt í einu fram jólasveinn svo okkur dauðbrá. Þessi jólasveinn var sko gamli bjúgnakrækir og lét hann heldur ófriðlega. Ekki laust við að við urðum smá hrædd við hann, Moldi var fljótur að hoppa upp í fang eins barnsins. Bjúgnakrækir teymdi okkur til stofu og þar sagði hann okkur sögur af því þegar hann og bræður hans voru upp á sitt besta. Á heimleiðinni hittum við svo rauðan jólasvein í strætó og var hann hinn ljúfasti. Moldi skemmti sér vel í þessari ferð.

 

Prestar í heimsókn, jólamatur og Moldabíó - 20.12.2012

Það var mikið að gera hjá okkur í dag. Við fengum prestana Sigfús og Öddu frá Hjallakirkju í heimsókn. Þau sungu nokkur lög með börnunum og sögðu frá fyrstu jólunum. Moldi fékk að aðstoða þau og stóð sig með prýði. Í hádeginu fengum við okkur jólamat, reykt bjúgu með uppstúf, grænum baunum og rauðkáli. Ís var í eftirrétt. Þegar börnin höfðu borðað nægju sína horfðum við saman á jólateiknimynd með Moldvörpunni. Moldvarpan setti upp jólatré fyrir músina vin sinn, en þá kom krákan og stal jólatrénu. Moldvarpan dó ekki ráðalaus heldur fór og keypti sér jólatré sem spatt upp úr kassa. Þegar krákan ætlaði að stela því spratt tréð inni í kassann og krákan náði ekki trénu. Skemmtileg mynd sem foreldrar geta líka horft á heima með börnunm. Hægt er að fylgja þessari vefslóð (Opnast í nýjum vafraglugga).

Jólaskógarferð - 18.12.2012

Við fórum í okkar árlegu jólaskógarferð í dag. Þá förum við í Asparlund skógarstofuna okkar og kveiktum varðeld og sungum jólalög. Við fengum okkur svo einnig kakó og smákökur. Virkilega notaleg stund þarna í skóginum. Moldi var með okkur í skóginum, en það er óvíst að hann sjáist mikið vegna þess að það var svo mikið myrkur.

Morgunkaffi - 14.12.2012

Við buðum foreldrum í morgunkaffi í dag. Börnin voru búin að undirbúa komu þeirra með því að baka piparkökur. Flest allir foreldrar gáfu sér tíma til þess að stoppa við og fá sér kaffi eða kakó með börnunum sínum. Moldi fékk að sjálfsögðu að taka þátt í þessari góðu morgunstund eins og sjá má á myndunum.

Jólaferð í Húsdýragarðinn - 10.12.2012

Í morgun fórum við í okkar árlegu jólaferð í Húsdýragarðinn. Við byrjuðum á því að fá okkur kakómjólk og piparkökur í Kaffi Flóru og svo fórum við og óskuðum dýrunum gleðilegra jóla. Moldi fékk að koma með okkur í garðinn og hitta dýrin. Molda fannst þetta afar áhugavert.

Moldi Álfasteins fór í heimsókn - 10.12.2012

Einn drengurinn á Álfasteini bauð honum Molda með sér heim um helgina. Þeir áttu saman ánægjulega helgi eins og myndirnar bera með sér. Fyrst var leikið sér fram að kvöldverð og og svo var lesið fyrir Molda fyrir svefninn. Moldi mátaði nokkur rúm áður en hann ákvað hvar hann vildi sofa. Hann fann svo besta rúmið fyrir rest. Á sunnudeginum fór Moldi  með á jólaball leikskólans og þar hitti hann jólasveininn og tekin var mynd af honum með jólasveininum. Hér má sjá fleiri myndir.

 

Jólaball - 9.12.2012

Í dag var jólaball leikskólans. Jólaballið byrjaði með danssýningu barnanna sem Dagný Björk stjórnaði og stóðu börnin sig með prýði öll sem eitt. Þá var dansað í kringum jólatréð og jólasveinn kíkti í heimsókn og gaf öllum börnunum mandarínur. Svo fengu allir sér veitingar og kakó og höfðu það notalegt saman. Moldarnir okkar tóku virkan þátt í jólaballinu og skemmtu sér konunglega.

 

Moldarnir til tannlæknis - 29.11.2012

Í dag fengu bæði stóri Moldi og Álfasteins Moldi að fara með bræðrum til tannlæknis. Móðir þeirra tók fyrir okkur fullt af myndum vegna þess að við ætlum að leysa ákveðið verkefni í Cominíusar verkefninu með þeim. Verkefnið fellst í því að við búum til bækling um mikilvægi góðrar tannheilsu.

 

Moldi fer til tannlæknis - 23.11.2012

Moldi var með tannpínu í gær og þurfti að fara til tannlæknis. Hann var svo heppinn að einn drengurinn á Álfasteini var á leiðinni í skoðun hjá tannlækni og leyfði Molda að fara með. Moldi var ekkert hræddur við tannlækninn. Settist í stólinn og leyfði tannlækninum að skoða tennurnar. Báðir piltarnir fengu fyrstu einkunn hjá tannlækninum, enda eru þeir duglegir að bursta tennurnar kvölds og morgna. Sjá fleiri myndir.

 

Skákklúbbur elstu barnanna á Mánasteini - 22.11.2012

Síðdegis í dag var skákklúbbur hjá elstu börnunum á Mánasteini og foreldrum þeirra. Það var fjölmenni sem skemmti sér konunglega við taflmennskuna. Börnin eru sum komin lengra í skáklistinni en foreldrarnir og ætla að vera dugleg heima að kenna foreldrum sínum.

Moldi var með hita. - 22.11.2012

Moldi litli var eitthvað slappur þannig að börnin á Dvergasteini ákváðu að mæla hann.  Ein af okkar röggsömu stúlkum sýndi Molda að það var ekkert að óttast þegar maður er mældur.

Skákklúbbur elstu barnanna á Dropasteini - 20.11.2012

Síðdegis var elstu börnunum á Dropasteini og foreldrum þeirra boðið í skákklúbb í leikskólanum. Við áttum saman ánægjulegt síðdegi við skák. Foreldrarnir voru áhugasamir við taflmennskuna og sumir voru að læra að tefla í fyrsta sinn. Takk fyrir komuna.

 

Moldi tekur þátt í viku í rusli - 15.11.2012

Leikskólinn okkar er Grænfánaskóli og þess vegna vinnum við að ýmsum verkefnum sem lúta að umhverfisvernd og náttúrunni. Þessa viku erum við einmitt með Viku í rusli. Moldi hefur tekið þátt í ýmsu því sem við erum að fást við þessa viku. Hann fór m.a. í heimsókn með elstu börnunum í Sorpu. Hægt er að fræðast meira um Viku í rusli hér á sérstakri heimasíðu.

 

Fundur í Ösagárd í Ungverjalandi - 12.11.2012

Í síðustu viku þá dvöldu þær Fjóla og Anna Björg í Ungverjalandi hjá vinum okkar í Ösagárd. Þetta var fyrsti fundurinn í verkefninu okkar Moldvarpan og drottningin.
Agnes vinkona okkar leikskólastjóri í litla leikskólanum í Ösagárd tók stórkostlega á móti okkur og allir bæjarbúar (u.þ.b. 350) voru meðvitaðir um komu okkar. Haldin var glæsileg veisla okkur til heiðurs í félagsheimili bæjarins eitt kvöldið. Ungverjar eru höfðingjar heim að sækja. Við fengum að upplifa margt í þessari ferð t.d. ferð í einka vínsafn, byggðasafn sem Agnes og bæjarstjórinn hafa komið upp í húsnæði á leikskólalóðinni. Heimsókn í bæði leikskólann og grunnskólann í sveitafélaginu. Á lokadegi heimsóknarinnar fengum við svo að skoða Búdapest og það er borg sem okkur langar að heimsækja aftur. Við tókum mikið af myndum og myndböndum og hér má sjá eitthvað af þeim.


Comeniusarveggur - 4.11.2012

Við erum búin að setja upp svokallaðan Comeniusarvegg. Það er eitt af viðfangsefnum í verkefnisins Moldvarpan og Drottningin. Nú vantar okkur bara að skreyta hann meira með myndum og einhverju áhugaverðu frá vinum okkar úti í Evrópu.
Samstarfsskólar okkar eru hver af öðrum að koma sér upp svæði á Netinu til þess að kynna viðfangsefni sín. Við erum svo líka með sameiginlega síðu sem væntanlega kemur til með að tengja saman allar síðurnar.
Hér má sjá heimasíðu leikskólans í Kolin, hér er heimasíða skólans í Tyrklandi, heimasíða verkefnisins í Ösagard í  Ungverjalandi og Fésbókarsíða leikskólans í Búlgaríu.


Við teflum - 3.11.2012

Við notum hverja lausa stund til þess að tefla svolítið. Börnin í Risaeðluhópi og Fiðrlildahópi á Mánasteini voru snögg að vinna viðfangsefni sín í hópastarfi í vikunni og að sjálfsögðu tóku þau aðeins í tafl í lok tímans.

Moldi í frjálsum leik - 3.11.2012

Stundum fær Moldi að vera með í leik barnanna. Einn morgun á Dropasteini voru tveir ungir menn í leik með Molda. Moldi var einn af fjölskyldunni og tók þátt í daglegu lífi fjölskyldunnar. Hann fór m.a.  í vinnuna, fékk sér kvöldmat og fór að sofa.

Moldi fer í ferðalag - 1.11.2012

Á Álfasteini fer hann Moldi vinur okkar heim með börnunum um helgar og er það mjög spennandi verkefni. Hér má sjá myndir frá því þegar Moldi fór í ferðalag með einu barninu á deildinni. 


Molda boðið í mat - 24.10.2012

Börnin á Dropasteini buðu Molda til hádegisverðar. Moldi var afar prúður og fylgdist vel með öllu sem fram fór. Hann vildi ekkert borða, enda þarf hann þess ekki.

Refahópur teiknar Molda - 22.10.2012

Í hópastarfi í dag tóku börnin í Refahópi sig til og teiknuðu Molda frá öllum hliðum. Eins og sjá má þá voru þau ákaflega einbeitt við vinnu sína.

 

Moldi í heimsókn á Dvergasteini - 19.10.2012

Moldi var í heimsókn á Dvergasteini í dag. Hann byrjaði daginn á því að vera í sögustund. Svo tók hann þátt í frjálsum leik með börnunum. Hann var m.a. í kaffiboði í hlutverkaleik og líkaði það vel. Hann fylgdist með krökkunum teikna og sum þeirra voru að teikna hann. Eftir góðan leik fór hann með börnunum í jóga.

Stelpuskák - 17.10.2012

Elstu stelpurnar okkar héldu skákmót í dag. Þær voru ákaflega kappsamar og fögnuðu innilega þegar sigur var í höfn.

Skák og mát - 11.10.2012

Elstu börnin okkar eru orðin mjög dugleg að tefla. Þau hafa greinilega af því bæði yndi og ánægju eins og sjá má á myndunum. Auðvitað fær Moldi að vera með, enda eru börnin að kenna honum að tefla.

 

Moldi hjálpar músinni - 10.10.2012

762730KrtkovaDobrodruzstvi4

Elstu börnin á Mánasteini horfðu í dag á teiknimyndina Krtkova Dobrodruzstvi 4. Í þessari teiknimynd var hann Moldi að hjálpa músinni vini sínum. Músin var lasin heima í rúmi og Moldi fór af stað til þess að finna fyrir músina meðal.  Moldi hitti uglu sem sagði honum að hann skildi finna Kamillublóm og búa til te úr því fyrir músina, sem myndi lækna hana. Moldi fór vítt og breitt um heiminn til þess að finna Kamillublóm og lenti í mörgum ævintýrum, en fann hvergi Kamillublómið.
Hann fór grátandi heim, en þegar hann var kominn í nágrenni heimili síns tók hann eftir blómi sem reyndist vera Kamillublóm. Hann hafði því leitað langt yfir skammt. Moldi bjó til te og gaf músinn og þá fór henni að batna.
Þessi saga kennir okkur að vera hjálpsöm og sannir vinir.

Moldi fer í heimsókn - 9.10.2012

Moldi fær að fara í heimsókn heim til barnanna á Álfasteini um helgar. Um síðustu helgi fékk hann að fara í heimsókn í Mosfellsbæ. Þar hafði hann það ljómandi gott í góðu yfirlæti. Hann fékk m.a. að horfa á barnatímann í sjónvarpinu.

       
       
       
       


Moldvörpu ævintýri - 5.10.2012

dvd-krtkova-dobrodruzstvi-2Börnin á Dvergasteini horfðu á eina af Moldvörpumyndunum í morgun. Í þessari teiknimynd lendir Moldvarpan í miklum ævintýrum. Hún vaknaði við mikinn umferðarnið og kemst að því að bílar eru frábær farartæki. Eftir mikla leit finnur Moldvarpan sér lítinn leikfangabíl sem hún verður að láta laga. Þegar búið er að laga bílinn fer Molvarpan út að keyra og endar svo heima hjá sér þar sem hún leggst til hvíldar.

Þegar börnin höfðu horft á myndina urðu miklar umræður um ævintýri moldvörpunnar og svo leiruðu þau Moldvörpuna og ætla síða að mála hana. Börnin voru öll áhugasöm og við horfðum þrisvar sinnum á myndina að þeirra beiðni.

 

Moldi í gönguferð í nágrenninu - 4.10.2012

Börnin á Álfasteini fóru í gönguferð með Molda í dag. Þau fóru og litu við á fótboltavellinum og gengu spölkorn um Fossvoginn. Moldi naut sín vel í fallegu umhverfi.

Moldi í gönguferð - 3.10.2012

Í dag fékk Moldi að kynnast okkar nánasta umhverfi. Piltarnir réðu nokkuð ferðinni og það voru teknar myndir af Molda á nánast hverri þúfu. Fyrsta myndin var af honum á vespu við Snælandsskóla, það þótti piltunum rossalega töff. Svo kynntist Moldi HK svæðinu, fótboltavellinum, blakvellinum og fl. Teknar voru nokkrar haustmyndir af Molda, en núna eru trén einstaklega falleg í haustlitunum. Við fórum svo í Asparlund og þar fékk Moldi að prófa að tálga og klifra. Hann skemmti sér konunglega í ferðinni.


Moldi skoðar stærstu kirkju á Íslandi - 3.10.2012

church_234Ljónahópur og Fiskahópur buðu Molda með sér í ferðalag í dag. Þau fóru að skoða Hallgrímskirku sem er stærsta kirkja á Íslandi. Hallgrímskirkja er kennd við prestinn og skáldið Hallgrím Pétursson (1614-1674), sem kunnur er fyrir Passíusálmana. Hún stendur efst á Skólavörðuholtinu með 73 m háan turn, sem gerir hana að mest áberandi mannvirki Reykjavíkur og þar með eitt aðalkennileiti hennar. Útsýni er frábært úr turninum á góðum degi.

Moldi fékk að skoða útsýnið úr kirkjunni og líkaði það ljómandi vel. Hann var líka að fara í sína fyrstu ferð með strætó og pössuðu börnin sérstaklega vel upp á hann alla ferðina. Á heimleiðinni var honum orðið svolítið kalt og fékk þá lánaða vettlinga. Þetta var skemmtileg og eftirminnileg ferð fyrir alla.Þetta vefsvæði byggir á Eplica